Kvikmyndir

Verið velkomin á tólftu Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík! Við erum sérstaklega stolt af því að geta í ár kynnt dagskrá þar sem hlutfall kvenleikstjóra er með hæsta móti – eins og lagt var upp með. Karlar hafa verið í óeðlilegum meirihluta í greininni allt frá upphafi og nú er tími kvenna kominn. Þær láta því ljós sitt skína í dagskrá þessa árs, á bak við myndavélina en líka framan við linsuna í bitastæðum og marglaga hlutverkum, sönnum og leiknum. Það er sérstakur heiður að taka á móti Margarethe von Trotta, en birtingarmyndir kvenna í kvikmyndum hafa verið henni hugleiknar og hún hefur unnið þrekvirki í að breikka þann kvarða.

En vitaskuld skal ekki rýrð kastað á karlana sem leggja til dagskrárinnar. Þeir eru ekki síðri listamenn. Auk fjölda upprennandi leikstjóra tökum við fagnandi á móti David Cronenberg sem hefur verið einn frumlegasti kvikmyndagerðarmaður heimsins um langt skeið.

Lífið er stutt og fullt af löngum, æðislegum bíómyndum. Og stuttum. Þannig að drífið ykkur í bíó! Hugsið endilega hlýlega til samstarfsaðila okkar og starfsfólks sem hefur unnið ómetanlegt starf í aðdraganda hátíðar. Ég á þeim bestu þakkir skildar.

Hrönn Marinósdóttir
Hátíðarstjórnandi