Flokkar og þemu

Undanfarin ár hefur RIFF sýnt um 100 myndir árlega frá fjörtíu löndum. RIFF leggur upp úr framsæknum og fjölbreyttum myndum. Til að auðvelda hátíðargestum valið er myndunum raðað í nokkra ólíka flokka.

Vitranir (keppnisflokkur um Gullna lundann, aðalverðlaun RIFF) – í Vitrunum tefla tólf nýir leikstjórar fram sinni fyrstu eða annarri mynd og keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Þessar myndir ögra viðteknum hefðnum í kvikmyndagerð og leiða kvikmyndalistina á nýjar og spennandi slóðir.

Fyrir opnu hafi – á hverju ári þyrla sömu myndirnar upp ryki hér og þar um heiminn. Þetta eru meistarastykki sem eru sum hver úr smiðju þekktra kvikmyndagerðarmanna á meðan önnur koma áhorfendum algjörlega í opna skjöldu.

Ísland í brennidepli – RIFF er skurðpunktur íslenskrar og erlendrar kvikmyndalistar. Í flokknum Ísland í brennidepli eru sýndar nýjar íslenskar stuttmyndir, heimildarmyndir og leiknar myndir í fullri lengd auk mynda sem láta sig landið varða.

Önnur framtíð – beinir sjónum að mikilvægum heimildarmyndum sem varpa ljósi á helstu málefni líðandi stundar er snerta samskipti manns og náttúru.

Heimildarmyndir – verða sífellt vinsælli. RIFF sýnir heimildarmyndir um tónlist, list, menningu, heiminn og tækni og svo mætti lengi telja.

Unga fólkið – RIFF leggur upp úr að því að ná til ungs fólks og býður upp á kvikmyndasýningar, námskeið og viðburði.

Sjónarrönd – kvikmyndagerð ákveðins lands er í sviðsljósinu á hverri hátíð. Árið 2014 var Ítalía, árið 2013 var Grikkland og þar áður var Þýskaland. Hvaða land verður í fókus á RIFF 2015?

Upprennandi meistari – þessi flokkur veitir innsýn inn í störf kvikmyndagerðarmanns sem er farinn að vekja athygli fyrir verk sín og er af mörgum talinn upprennandi meistari.

Heiðurverðlaunahafi – RIFF veitir kvikmyndaleikstjóra verðlaun fyrir æviframlag til kvikmyndalistarinnar. Af því tilefni býðst hátíðargestum að sjá sígildar kvikmyndir leikstjórans. Árið 2014 var Mike Leigh heiðraður og á meðal annarra heiðurshafa eru Béla Tarr, Susanne Bier og Jim Jarmusch.

Gullna eggið – Myndir frá þátttakendum í Reykjavík Talent Lab eru sýndar og keppa um verðlaunin Gullna eggið.