RIFF allt árið

RIFF heldur áfram eftir að hátíðinni lýkur. Við skipuleggjum ýmsa viðburði allt árið sem miða að því að auðga kvikmyndamenningu landsins. Við bjóðum upp á sumarbúðir, vinnusmiðjur, kennslu fyrir börn og unglinga ásamt samstarfsvettvangi fyrir íslenska og erlenda fagaðila.

Kynntu þér dagskrá RIFF yfir árið:

Bransadagar

Opið verður fyrir skráningu á Bransadagana 2015 í febrúar – júlí. Bransadagar 2014 samanstóðu af pallborðsumræðum 4. og 5. október með bæði íslenskum og erlendum fagaðilum. Um er að ræða einstakt tækifæri til þess að skiptast á hugmyndum og aðferðum. Bransadagar eru vettvangur þar sem að íslenskt kvikmyndagerðarfólk getur komist í tengingu við alþjóðlega kvikmyndaheiminn án þess að fara að heiman.

Talent Lab

Kvikmyndasmiðja RIFF, Talent Lab, er fyrir ungt hæfileikafólk frá Evrópu og Ameríku þar sem það fær tækifæri til þess að hittast í Reykjavík og upplifa það sem er að gerast í kvikmyndaiðnaði beggja vegna Atlantshafsins. Þessi alþjóðlega kvikmyndasmiðja er undir áhrifum frá staðsetningu Íslands þar sem landið er staðsett milli Evrópu og Norður-Ameríku. Staðsetningunni er þannig ætlað að brúa bilið milli heimsálfanna tveggja, landfræðilega og jafnvel enn frekar menningarlega.

Sumarbúðir RIFF

Sumarbúðir RIFF eru námskeið í handritagerð fyrir lengra komna. Þær eru hugsaðar sem vettvangur þar sem ungt afreksfólk á sviði kvikmynda getur bætt færni sína í handritaskrifum. Fyrirlestrar, umræður og lifandi „pitch“ fundir þar sem þátttakendur fá viðbrögð við hugmyndum sínum og uppköstum yrðu allt hluti af námskeiðinu. Leiðbeinendur vinna í návígi við smáa hópa nemenda að þróun handrita, auk þess sem þátttakendur fá ríkulegan tíma í einrúmi með leiðbeinendum. Þá má gera ráð fyrir nokkrum fyrirlestrum fyrir hópinn allan og nokkrum kvikmyndasýningum. Ætlunin er að nemendur fari heim með ríkari og dýpri skilning á sjónrænum frásagnarmáta sem nýtist jafnt við gerð leikinna, teikni- og heimildarmynda. Þeim sem starfa við nýmiðlun og leikjahönnun býðst einnig að taka þátt.

Sumarbúðirnar eru framlenging á kvikmyndasmiðju Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar (RIFF Talent Lab) sem hefur farið fram við góðan orðstír samhliða kvikmyndahátíðinni allt frá árinu 2006. Kvikmyndagerðarmönnum sem hafa lokið við minnst eina stuttmynd eða fleiri og eru að þróa næstu verkefni býðst þátttaka.

Sumarbúðirnar fóru síðast fram í Skagafirði dagana 21.-25. maí 2013. Meðal leiðbeinenda voru Baltasar Kormákur, Peter Wintonick, heimildamyndaframleiðandi frá Kanada, Lárus Ýmir Óskarsson, leikstjóri og framleiðandi og Simon Brook, leikstjóri og framleiðandi frá Frakklandi.

Mínus 25

Hreyfimyndasmiðja leikskólabarna (5 ára)

RIFF hefur staðið að hreyfimyndasmiðju fyrir yngstu kynslóðina síðastliðin ár. Leikskólakrakkar vinna við gerð svokallaðra ‘stop-motion’ hreyfimynda undir handleiðslu fagfólks úr stétt kvikmyndagerðarmanna. Að lokum sýnir RIFF myndirnar endurgjaldslaust á tjaldi meðan á kvikmyndahátíð stendur.

Áhersla hreyfimyndasmiðjunnar í ár (2013) var á umverfismál og sögu Íslands. Þemað átti að veita börnunum innsýn í einhver mikilvægustu málefni líðandi stundar, og sögulega samhengið – samlífi manns og náttúru gegnum tíðina, þróun byggðar á Íslandi. Kvikmyndasmiðjan fer vanalega fram í Norræna húsinu þar sem nánasta umhverfi er nýtt, friðlandið í Vatnsmýrinni með fuglalífi sínu og gróðri, sem efnivið í verkum barnanna. Markmiðið er að fá þátttakendur til að hugsa sjálfstætt og með gagnrýnum hætti um hluti sem skipta máli og átta sig á möguleikum kvikmyndanna til að hafa áhrif.

Stuttmyndasmiðja

RIFF stendur fyrir stuttmyndasmiðju í samvinnu við Myndver grunnskólanna. Námskeiðið hefur farið fram í Norræna húsinu, fyrir grunnskólanema í Reykjavík, og í Molanum, fyrir grunnskólanema í Kópavogi. Á námskeiðinu eru fyrirlestrar um kvikmyndagerð (handrit, leikstjórn og klippingu) fluttir af okkar fremsta kvikmyndagerðarfólki fyrir unga fólkið. Stuttmyndasmiðjan er ætluð krökkum í 5.-7. bekk (10-12 ára) annars vegar og hins vegar fyrir nemendur í 8.-10. bekk (13-15 ára).