Barna- og unglingadagskrá

Námskeið fyrir börn:

Stuttmyndasmiðja

RIFF stendur fyrir stuttmyndasmiðju í samvinnu við Myndver grunnskólanna. Námskeiðið hefur farið fram í Norræna húsinu, fyrir grunnskólanema í Reykjavík, og í Molanum, fyrir grunnskólanema í Kópavogi. Á námskeiðinu eru fyrirlestrar um kvikmyndagerð (handrit, leikstjórn og klippingu) fluttir af okkar fremsta kvikmyndagerðarfólki fyrir unga fólkið. Stuttmyndasmiðjan er ætluð krökkum í 5.-7. bekk (10-12 ára) annars vegar og hins vegar fyrir nemendur í 8.-10. bekk (13-15 ára).

Hreyfimyndasmiðja leikskólabarna (5 ára)

RIFF hefur staðið að hreyfimyndasmiðju fyrir yngstu kynslóðina síðastliðin ár. Leikskólakrakkar vinna við gerð svokallaðra ‘stop-motion’ hreyfimynda undir handleiðslu fagfólks úr stétt kvikmyndagerðarmanna. Að lokum sýnir RIFF myndirnar endurgjaldslaust á tjaldi meðan á kvikmyndahátíð stendur. Kvikmyndasmiðjan fer vanalega fram í Norræna húsinu þar sem nánasta umhverfi er nýtt, friðlandið í Vatnsmýrinni með fuglalífi sínu og gróðri, sem efnivið í verkum barnanna. Markmiðið er að fá þátttakendur til að hugsa sjálfstætt og með gagnrýnum hætti um hluti sem skipta máli og átta sig á möguleikum kvikmyndanna til að hafa áhrif.

Barnadagskrá:

RIFF leggur metnað í að kynna kvikmyndalistina fyrir yngri kynslóðum og hefur staðið fyrir margvíslegum viðburðum í þeirri viðleitni.  Má þar meðal annars nefna bílabíó þar sem börn bjuggu til sinn eigin kassabíl sem þau svo sátu í og horfðu á kvikmyndir og sýningar þar sem leikari hefur túlkað það sem fram fer á skjánum öllum til ánægju.