Hellabíó í september

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík bauð upp á hellabíó 3. september.

Frekari upplýsingar eru hér að neðan, í tengslum við auglýsingu á hellabíóinu:

Þann 3. september næstkomandi mun Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík í samstarfi við Cintamani, Arctic Adventures, Sagafilm og Reykjavík Excursions bjóða upp á einstaka hellaferð með kvikmyndasýningu í nágrenni Reykjavíkur.

RIFF hefur sett saman sérstaka kvikmyndadagskrá sem verður sýnd í helli í nágrenni borgarinnar, sem hentar einstaklega vel fyrir kvikmyndasýningar. Leynd ríkir yfir hellinum en öll öryggisatriði eru tryggð og verður ferðin farin undir leiðsögn leiðsögumanna frá Arctic Adventures og RIFF.

Valdar íslenskar stuttmyndir frá liðnum árum verða sýndar. Myndirnar eru Ástarsaga eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur sem vinnur nú að sinni fyrstu mynd í fullri lengd, Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson sem hlaut sérstök dómnefndarverðlaun í Cannes árið 2013 og þá Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson en myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki stuttmynda árið 2006. Að auki verður einnar mínútu myndaserían Tell me your dream. Make it succinct and make it spectacular kynnt í samstarfi við samtökin The One Minutes í Hollandi. Hún verður sýnd í heild sinni á RIFF-hátíðinni í haust.

Lagt verður af stað frá Reykjavík í tvær ferðir klukkan 09.30 og klukkan 14 frá Cintamani við Bankastræti.

Takmarkað magn miða er í boði og því er vert að tryggja sér miða í tíma.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, verður haldin í tólfta sinn dagana 24. september til 4. október. RIFF býður ár hvert upp á óhefðbundna, skemmtilega og glæsilega kvikmyndaviðburði á borð við kvikmyndatónleika, sundbíó, heimabíó og pallborðsumræður. Hátíðin í haust er engin undantekning og verða spennandi viðburðir í boði fyrir gesti hátíðarinnar. Hellabíóið er hluti af upptakti RIFF og er sniðug leið fyrir þá sem vilja hita upp fyrir kvikmyndahátíð haustsins.

  • Gestir hellabíós þurfa að vera í hlýjum útivistarklæðnaði og góðum gönguskóm.
  • Í verði er eftirfarandi innifalið: rútuferð til og frá Reykjavík og hellinum, hellaskoðun, leiðsögn, viðeigandi búnaður, kvikmyndasýning og heitir drykkir í boði kaffibarþjóna frá Mekka Wines & Spirits.
  • Athugið að ferðin verður aðeins farin ef ákveðinn fjöldi gesta kaupir miða.
  • Lengd: 3-3.5 tímar.

Frekari upplýsingar um myndirnar:

Ástarsaga eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur sem vinnur nú að sinni fyrstu mynd í fullri lengd. Myndin hefst í New York, þegar kærasti Solange, hinn íslenski Baldur, hverfur skyndilega af heimili þeirra og dúkkar svo upp í Reykjavík. Solange ákevður að elta hann, en þegar til Íslands er komið er lítið um svör. Þvert á móti tekur við enn stærri ráðgáta.

Hvalfjörður eftir Guðmund Arnar Guðmundsson sem hlaut sérstök dómnefndarverðlaun í Cannes árið 2013. Myndin fjallar um tvo bræður sem alast upp í afskekktum firði á Íslandi og lýsir atburðum sem munu koma til með að hafa mikil áhrif á líf þeirra beggja.

Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki stuttmynda árið 2006. Hjónin Gróa og Hrafn hyggjast bregða búi og flytja sig á elliheimi. Þegar dóttir Hrafns hyggst sækja þau kemur í ljós að atburðarásin verður með allt öðrum hætti.