Alejandro Jodorowsky og Darren Aronofsky heiðraðir á RIFF!

Við erum mjög stolt að kynna heiðursgesti RIFF í ár, þá Alejandro Jodorowsky og Darren Aronofsky. Aronofsky er þekktur fyrir myndir eins og Noah, Black Swan, Requiem for a Dream, Pi og the Fountain. Aronofsky hefur verið tilnefndur til fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir kvikmyndir sínar og var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn fyrir myndina Black Swan.

Jodorowsky er þekktur fyrir költ myndir eins og El Topo og The Holy Mountain. En nýlega frumsýndi hann nýjustu mynd sína Endless Poetry sem er einskonar sjálfsævisöguleg skoðun á ferli hans. Jodorowsy hefur einnig skrifað fjöldan allan af teiknimyndasögum meðal annars The Incal sem af mörgum er talin ein besta myndasögusería allra tíma.

Aronofsky mun taka á móti heiðursverðlaunum RIFF fyrir framúrskarandi listfengi og Jodorowsky fær heiðursverðlaun fyrir æviframlag sitt til kvikmyndalistarinnar. Nokkrar af helstu myndum meistaranna verða sýndar á hátíðinni. Þá munu þeir svara spurningum áhorfenda að lokinni sýningu á völdum myndum. Einnig verða þeir með meistaraspjall opið almenningi þeir sem þeir ræða verk sín.