RIFF fer til Möltu

Í dag 9. júní hefst ráðstefna á Möltu um kvikmyndir smáþjóða. Tveir fulltrúar frá Íslandi verða á ráðstefnunni. Hrönn Marinósdóttir stjórnandi RIFF og Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Auk Íslands eiga, Írland, Moldavía, Lettland, Króatía og Malta fulltrúa á ráðstefnunni.

Ráðstefnan sem nefnist á ensku „The Cinema of Small Nations“ er skipulögð af Film Grain Foundation sem skipuleggja líka Valletta kvikmyndahátíðina á Möltu sem fer fram á sama tíma. Markmiðið er að safna saman fræðimönnum, kvikmyndagerðarmönnum, stefnumótendum, fjölmiðlafólki og drefingaraðilum til að ræða um kvikmyndagerð minnstu ríkja heimsins.

Á ráðstefnunni verður rætt um þær hindranir sem smáþjóðir verða fyrir í frumkvöðla starfi, þá opinberu stefnu sem gildir um kvikmyndaframleiðslu, hlutverk menntunar í sköpun sjónlista, aðgengi að dreifikerfi fyrir litlar þjóðir og tækifæri sem skapast þegar kvikmyndagerðarmenn og framleiðendur smáþjóða vinna saman.

Malta lítur til Íslands hvað varðar kvikmyndastefnu. Þeim finnst mikið til koma hvað Íslandi hefur gengið vel alþjóðlega og vilja læra af okkur. Það er von okkar hjá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík að þátttaka á ráðstefnunni verði til þess að styrkja samband okkar við aðrar smáþjóðir á borð við Möltu og að við finnum vettvang til frekari samvinnu á komandi árum.