Hátíðin

RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík – er einn stærsti og fjölbreyttasti menningarviðburðurinn á Íslandi. RIFF er sjálfstæð óháð kvikmyndahátíð sem er rekin án hagnaðar. Starfsfólk okkar vinnur allan ársins hring við undirbúning en þegar nær dregur hátíð kemur inn fjöldi sjálfboðaliða frá öllum heimshornum og eigum við þeim mikið að þakka.

Í ellefu daga á hverju hausti flykkjast Íslendingar í bíó til að sjá það besta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð. Hátíðin er einnig vel sótt af erlendum fjölmiðlum og fagfólki. Enn fremur býðst gestum að spjalla við leikstjóra um verk sín, sækja málþing og fyrirlestra, tónleika og ljósmyndasýningar, og að sjá kvikmyndir við óhefðbundin skilyrði – t.d. í sundi eða í stofunni hjá þekktum kvikmyndagerðarmanni!

Dagskráin setur unga kvikmyndagerðarmenn og framsækna kvikmyndagerð á oddinn. Aðalverðlaun hátíðarinnar, Gyllti lundinn, eru tileinkuð kvikmyndagerðarmanni fyrir sína fyrstu eða aðra mynd.

Hjá RIFF trúum við því að bíó geti breytt heiminum. Heimildarmyndir skipa sífellt stærri sess í dagskrá hátíðarinnar og leiknar myndir sem láta sig sérstaklega varða mannréttindi, lífsgæði og umhverfismál fá ríkulegt pláss.

RIFF er ekki síður mikilvægur vettvangur fyrir íslenska kvikmyndagerðarmenn til að kynna verk sín fyrir umheiminum. Fjöldi erlendra blaðamanna og bransafólks sækir hátíðina ár hvert og áhugi þeirra á því að kynna sér íslenskar kvikmyndir leynir sér ekki. Hátíðin reynir að sýna framleiðslu liðins árs, frumsýna nýjustu myndirnar og gera íslenskri stuttmyndagerð hátt undir höfði. Besta íslenska stuttmyndin fær verðlaun úr minningarsjóði Thors Vilhjálmssonar en Gullna eggið kemur í hlut bestu stuttmyndarinnar sem tekur þátt í Kvikmyndasmiðju RIFF (Talent lab).

Næsta hátíð verður sú þrettánda í röðinni og mun hún standa frá 29.september – 9. október 2016. Fylgist með dagskránni hér á riff.is.

RIFF | NÝSKÖPUN – TENGSLANET – SAMRÆÐA
RIFF stefnir að því að verða meðal fremstu kvikmyndahátíða í Evrópu þar sem áhersla verður áfram lögð á að hér geti gestir ekki aðeins uppgötvað ungt hæfileikafólk, sem keppnisflokkur hátíðarinnar er tileinkaður, heldur einnig óvenjulega og unga borg í landi sem bókstaflega iðar af lífi. Meginmarkmið RIFF verður hér eftir sem hingað til að standa fyrir nýsköpun í kvikmyndaiðnaði, samfélagslegri og menningarlegri samræðu og síðast en ekki síst frekari uppbyggingu á alþjóðlegu tengslaneti.

Nýsköpun
Í aðalkeppnisflokki hátíðarinnar, Vitrunum (e. New Visions), eru eingöngu sýnd verk sem eru fyrsta eða önnur mynd leikstjóra. RIFF hefur algera sérstöðu að þessu leyti á meðal alþjóðlegra kvikmyndahátíða.  Hátíðin leggur áherslu á dagskrá er gengur undir heitinu Mínus25 en eins og nafnið gefur til kynna snýst hún um kvikmyndagerðar- og áhugafólk sem er undir 25 ára aldri. Dagskráin samanstendur af Hreyfimyndasmiðju leikskólanna, Stuttmyndasmiðju grunnskólanna og frá og með haustinu 2011 Stuttmyndakeppni framhaldsskólanna. Tilgangurinn með Mínus25 er að virkja ímyndunarafl og sköpunargleði unga fólksins, styðja við kvikmyndalæsi yngri kynslóða sem lengi hafa búið við einsleita kvikmyndamenningu hérlendis.

Tengslamyndun er snar þáttur í starfi hátíðarinnar, meðal annars á milli ungra og reyndra kvikmyndagerðarmanna, á milli íslenskrar (norrænnar) kvikmyndagerðar og alþjóðlegrar og á milli kvikmyndagerðarmanna og alþjóðlegrar fræðastarfsemi um kvikmyndir og menningu.  Hátíðin rekur markað fyrir kvikmyndir þar sem m.a. ný íslensk framleiðsla er  aðgengileg fagfólki sem hingað kemur svo sem sölu-og dreifingaraðilum. Af hátíð hafa orðið til mörg samstarfsverkefni milli íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna.
Samræða hefur frá byrjun verið eitt af grunnstefjum RIFF. Hátíðin hefur litið á það sem hlutverk sitt að koma á samræðu við samfélagið og um það, á milli kvikmyndagerðarmanna og hátíðargesta, á milli ólíkra menningarheima, á milli ólíkra listgreina, á milli kvikmyndafræðanna og kvikmyndagerðarinnar o.s.frv. Hátíðin hefur frá byrjun lagt sérstaka áherslu á heimildamyndir og þá einkum um umhverfismál og mannréttindi. Hátíðin hefur einnig efnt til málþinga, fyrirlestra og umræðna um ýmis mál sem snerta samfélag okkar, samtíma og menningu. Hátíðin telur að með þessum hætti myndi hún mikilvæg tengsl við samfélag sitt og skili þekkingu til þess. RIFF er eins konar þekkingarsmiðja.