RIFF vantar starfsfólk!

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík leitar að drífandi verkefnastjórum til að sinna margvíslegum verkefnum á sviði sölu- og markaðsmála, kynningarmála, framleiðslu, textagerðar og viðburðastjórnunar.

Meðal verkefna eru sölumál og þjónusta við viðskiptavini, samskipti við samstarfsaðila og markaðssetning hátíðarinnar. Halda utan um og stýra kynningarmálum, auglýsingasölu og framleiðslu viðburða.

Við leitum að starfsmönnum sem hafa góða skipulags- og samskiptahæfni, eru nákvæmir í starfi og sýna mikið frumkvæði. Viðkomandi þurfa að vinna sjálfstætt og að ólíkum verkefnum á hverjum tíma. Starfsmenn þurfa að þola að vinna vel undir álagi, vera sveigjanlegir og að hafa brennandi áhuga á kvikmyndum og menningu.

Hæfniskröfur

Reynsla á sviði sölu- og markaðsmála og/eða af viðburðarstjórnun er mikill kostur.
Góð tölvukunnátta og góð þekking á rituðu og mæltu máli, á íslensku og ensku, er nauðsynleg.
Háskólamenntun sem nýtist í starfi er kostur.

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Ýmist fullt starf eða hlutastarf kemur til greina.

Áhugasamir sendi umsókn og ferilskrá á riff@riff.is fyrir 25. júní, merkt verkefnastjórar.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík var stofnuð árið 2004 og er haldin árlega að hausti til. Henni er ætlað að lífga upp á kvikmyndamenningu í landinu, en ekki síður að vera alþjóðlegur viðburður sem tekið er eftir.

Á hátíðinni sem stendur yfir í ellefu daga ár hvert eru sýndar yfir 100 kvikmyndir, haldnir tónleikar, myndlistarsýningar og fyrirlestrar. Jafnframt stendur hátíðin fyrir námskeiðum fyrir skólabörn og skipuleggur alþjóðlegar kvikmyndasmiðjur fyrir kvikmyndagerðarmenn.