Um myndina

Í júlí árið 1973 keyrði Olga Hepnarová, 22 ára tékknesk kona, vörubíl inn í mannþröng í Prag, átta manns lágu í valnum. Í kjölfarið var hún dæmd til dauða og varð síðasta konan sem var tekin af lífi í Tékkóslóvakíu. Olga Hepnarová var feimin að upplagi og vinalaus sem barn, hún var lögð í einelti af bekkjarfélögum sínum, hún átti einnig erfitt uppdráttar í ströngu umhverfi á heimili sínu.  Hatrið óx innra með henni og beindist að skeytingarlausu samfélagi.  Þegar hún yfirgefur barnageðsjúkrahús öðlast hún frelsi undan fjölskyldunni, hún klippir á sér hárið, byrjar að reykja, fær vinnu á bílaverkstæði og byrjar að skipuleggja hefnd gegn samfélaginu. 'I, Olga Hepnarová' er óhugnanleg skoðun á ungum huga sem leitar hefnda.